Samkvæmt lögum á hraðamælir í bíl alltaf að vera réttur. Ef drifum er breytt í réttu hlutfalli við aukna dekkjastærð ætti engin breyting að verða á hraðamæli. Þetta er þó ekki alltaf svona einfalt. Stundum eru ekki til drifhlutföll sem passa nákvæmlega til að leiðrétta breytinguna. Þá velja sumir hærri eða lægri drif eða breyta dekkjastærð án þess að breyta drifum til að fá fram einhverja aðra eiginleika. Þá er nauðsynlegt að leiðrétta hraðamælinn (sjá viðmiðunartöflu um drifhlutföll). Leyfilegt frávik hraðamælis er allt að 10% yfir raunhraða að viðbættum 4 km/klst. Hraðamælir má aldrei sýna meira en 4% minni hraða en raunhraða. (Sbr. Reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Dómsmálaráðuneytið, janúar 1999) Hraðamælum má breyta með því að setja lítinn gír á hraðamælabarkann og auka eða minnka hraðann á barkanum eftir þörfum. Margir nýrri jeppar hafa rafeindahraðamæli sem hægt er að breyta með rafbúnaði sem leiðréttir merkið frá hraðanema í drifrás jeppans. Þá er hægt að hafa hraðamælinn réttan þótt notaðar séu tvær mismunandi dekkjastærðir því rafbúnaðurinn er tveggja rása og er skipt milli dekkjastærða með rofa.