Í seinni tíð hefur færst í vöxt að færa afturhásingar á þeim bílum sem breytt hefur verið mikið, 10 til 20 cm aftar, til að bæta þyngdardreifingu milli fram- og afturhjóla. Reynslan hefur sýnt að auðveldara er að aka í snjó sé bíllinn þyngri að framan en aftan. Ástæðan er sú að framhjólin eiga að búa til sporið en afturhjólin aðeins að fylgja í kjölfarið en ekki rista dýpra. Ef afturhjólin rista dýpra en framhjólin getur mótstaða aukist og drifgeta þar af leiðandi minnkað verulega. Þetta fer þó dálítið eftir gerð snjóalaga. Þessu mætti einna helst líkja við göngu tveggja manna í snjó; annar 100 kg að þyngd en hinn aðeins 50 kg. Gengi léttari maðurinn á undan og sá þyngri í spor hans myndu báðir þurfa að erfiða vegna þess að spor létta mannsins næðu ekki að halda hinum þyngri. Ef sá þungi gengi aftur á móti á undan þyrfti aðeins hann að erfiða því spor hans myndu halda létta manninum.
Færsla afturhásingar er einnig kostur með tilliti til hleðslu því þótt jeppar séu vanalega þyngri að framan heldur en aftan getur það breyst þegar farangri og eldsneyti er hlaðið á afturhluta bílsins. Þetta jafnvægi getur verið afar viðkvæmt. Sem dæmi um það má nefna að með því að færa matarkistu úr aftasta rými jeppans og setja hana upp að baki framsætanna getur aksturshraðinn á jökli farið úr 5 km/klst í 50 km/klst. Þetta gerist þó aðeins ef aðstæður eru mjög erfiðar og snjór gljúpur.
Færsla á afturhásingu hefur áhrif á hreyfingar bílsins þannig að svokallað stamp minnkar, hreyfingar verða jafnari og jeppinn láréttari þegar hann fjaðrar. Það er kallað stamp þegar jeppi steypir á stömpum við akstur í snjó. Færsla afturhásingar hefur einnig áhrif til batnaðar þegar ekið er upp brekkur því þegar þyngd jeppans færist á afturhásingu við akstur upp brekku hjálpar færslan við að halda gripi á framhjólunum. Ef nefna ætti galla við færslu afturhásingar væri það einna helst lítillega aukinn beygjuradíus. Þá finnst sumum sem útlit jeppanna versni við færsluna en það er að sjálfsögðu smekksatriði og tengist einnig hönnun brettakanta sem eiga að hylja það rými sem myndast fyrir framan hjólin. Rétt er að benda á að færsla afturhásingar er yfirleitt kostnaðarsöm aðgerð en þeir sem vilja ná því besta út úr jeppanum fara út í þessa aðgerð.