Flipaskurður er hárfínn skurður á mynstri dekkjanna. Aukinn áróður gegn notkun nagla hefur leitt til nýrra leiða í því markmiði að viðhalda veggripi. Flestar nýjar gerðir vetrardekkja fyrir fólksbíla hafa flipaskurði og eru hluti af hönnun framleiðenda. Á flestum öðrum dekkjum er skurðurinn gerður eftir á í sérstökum vélum. Er jafnvel hægt að flipaskera hluta dekksins og negla hluta þess. Flipaskurður hefur þau áhrif að fleiri brúnir grípa í snjóinn. Við það eykst veggrip verulega, sérstaklega í þjöppuðum snjó eins og algengt er á vegum. Sumum finnst flipaskurður reynast betur en naglar. Flipaskornum dekkjum hættir síður við að svella undir sig, en það er þegar dekk spólar og svell myndast undir. Flipaskorin dekk plana síður í vatni, en það er þegar dekk bíls missir veggrip og flýtur vegna hraða. Við flipaskurð verða dekk yfirleitt mýkri. Hætta er á meira sliti ef mikið er ekið á hrauni og grjóti. Framleiðendur dekkja taka venjulega enga ábyrgð á dekkjum sem hafa verið flipaskorin.