Margir jeppaeigendur kjósa að setja aukaljós á bíla sína. Þau geta verið með ýmsu móti, allt frá því að vera lítil þokuljós og upp í stóra kastara. Flestir setja ljósin framan á bílinn en þó kjósa sumir að setja þau á toppinn. Við mælum frekar með ljósunum framan á bílnum því reynslan sýnir að toppljós gera oft lítið gagn við íslenskar aðstæður því hér á landi er mikil úrkoma og skafrenningur algengur. Í þeim tilfellum lýsa toppljósin úrkomuna upp þannig að ökumaðurinn sér lítið sem ekkert frá sér.
Þegar aukaljós eru notuð er í flestum tilfellum best að nota aðeins eitt par í einu og oft er gott að slökkva aðalljósin á meðan. Margir kastarar eru það öflugir að aðalljósin gera hvort sem er lítið sem ekkert gagn ef kveikt er á kösturunum. Gul ljós eru fáanleg í mörgum gerðum kastara. Þau eru mjög hentug við akstur í snjó og skafrenningi því þau auka skerpuna í snjónum. Við val á ljósum er nauðsynlegt að gæta þess að þau sé E-merkt (á ekki við um kastara og leitarljós) sem merkir að þau séu leyfileg hér á landi. Nákvæma lýsingu á leyfðum ljósum og staðsetningu þeirra er að finna í reglugerð um gerð og búnað ökutækja.
Helstu gerðir aukaljósa eru:
Ljóskastarar
Ljóskastarar eru til í nokkrum útgáfum. Þeir eru notaðir þegar skyggni er gott og þörf á að sjá langt fram. Best er að staðsetja þá framan á bílnum, mishátt eftir gerðum, en þær eru: Punktljós, sem hafa grannan geisla og lýsa mjög langt, og flóðljós, sem hafa breiðari geisla og lýsa skemmri vegalengd.
Þokuljós
Þokuljós eru notuð í slæmu skyggni, þoku, skafrenningi eða byl. Best er að hafa þau framan á jeppanum, eins neðarlega og mögulegt er og láta þau lýsa frekar stutt fram á veginn. Í þeim er geislinn þunnur á
hæðina en breiður. Vinsælustu þokuljósin eru svokölluð linsuljós sem hafa mjög vel skorinn geisla.
Leitarljós
Leitarljós eru mikið notuð við ýmsar aðstæður, til dæmis við leit að stikum og öðrum kennileitum. Best er að hafa þau á toppnum þar sem ekkert skyggir á. Mörgum finnst best að hafa þau vinstra megin þannig að hægt sé að láta þau lýsa niður á veginn við hlið bílstjóra. Þeim er stýrt innan úr bílnum.
Vinnuljós
Vinnuljós eru dreifiljós sem henta á hliðar og aftan á bílinn þegar verið er að athafna sig við jeppann.
Auka-háljós eru ljóskastarar sem eingöngu geta lýst með upphaflegum háuljósum jeppans. Þessi ljós eru staðalbúnaður á mörgum bílum.