Posted on

Það tíðkast að lækka loftþrýsting í dekkjum til að auka drifgetu þeirra. Það sem ávinnst er aukinn gripflötur dekkja við jörðu og þar með flothæfni. Því stærri sem dekkin eru þeim mun meira verður flot þeirra og grip við úrhleypingu.

Það er algengur misskilningur að úrhleyping eigi bara við stærri dekk en staðreyndin er að það hentar einnig dekkjum allt niður í 31″ dekk. Lykilatriðið er að fara sér hægt og prófa sig áfram en ekki síður að hafa hæfilega öfluga loftdælu ávallt til taks. Til eru mismunandi lausnir til að nota og tengja loftdælur. Allt frá handhægum loftdælum í töskum sem tengjast hvort sem er við 12 volt inni í bílum eða beint við rafgeyma. Önnur lausn er að setja dælu fasta í bíl, á hentugan stað. Þá er hægt að festa loftslöngutengingu til dæmis við eldsneytislok eða inn í grill. Þriðja lausnin er síðan sérstakur úrhleypibúnaður þar sem hægt er að hleypa lofti úr dekkjunum innan úr bílnum. Kerfinu er þá stýrt annað hvort með krönum eða með sérhönnuðu appi sem sýnir jafnframt þrýsting dekkjanna og getur viðhaldið honum sjálfkrafa í ákveðnu gildi.

Minnkun lofts í dekkjum er nauðsynleg við akstur í snjó en einnig mjög freistandi þegar ekið er á grófum malarvegum á sumrin. Við það verður aksturinn mýkri og þægilegri og farþegar njóta ferðarinnar betur. Þó ber að hafa í huga að engin dekk eru sérstaklega gerð fyrir lágan loftþrýsting. Því er nauðsynlegt að pumpa í dekkin aftur eins fljótt og auðið er þegar aka skal hratt á auðum eða sléttum vegi. Einnig skal forðast hvassa steina því þeir geta auðveldlega eyðilagt dekk. Á sumrin geta þær aðstæður komið upp að hleypa þurfi verulega miklu lofti úr dekkjum til að komast fyrir hindrun án þess að skemma undirlag.

Við akstur í snjó með lágum loftþrýstingi í dekkjunum þarf að gæta þess að þau hitni ekki. Reynslan er sú að þegar ekið er á mjög gljúpum snjó, sem krefst loftþrýstings allt niður í 3 pund til að drífa bílinn áfram, er ferðin vanalega svo lítil að snjórinn nær að kæla dekkið nægilega til að varna skemmdum. Ef snjórinn er harður eykst hraðagetan og hættan á dekkjaskemmdum. Því er nauðsynlegt að fylgjast ætíð vel með loftþrýstingi í dekkjunum. Þó ber að hafa í huga að utanvegaakstur er ávallt ólöglegur ekki ferðalöngum til sóma.

Dekk sem ekið er með lágan loftþrýsting eru alfarið á ábyrgð notanda því enginn dekkjaframleiðandi samþykkir að hleypt sé úr dekkjunum og keyrt á þeim þannig. Þeir sem aka í snjó upp jökla og fjöll þurfa stöðugt að fylgjast með loftþrýstingi í dekkjum, m.a. vegna þess að aukin hæð yfir sjávarmáli hefur þau áhrif að þrýstingur í dekkjum eykst. Þetta hefur veruleg áhrif á drifgetu jeppans. Á sama hátt þarf að fylgjast með og bæta tímanlega lofti í dekkin þegar farið er niður aftur. Auk hæðar yfir sjávarmáli hafa hitastig, hæðir og lægðir áhrif á loftþrýsting í dekkjum.

Algengt er að óvissa ríki um hvernig loftþrýstingurinn á að vera við mismunandi aðstæður. Við mælum með því að sækja dekkjaþrýstingstöflu þar sem finna má leiðbeiningar. Einnig tókum við saman fróðleik um loftdælur. Allt til þess gert að ferðalagið verði ánægjulegra og til þess að dekkin endist sem lengst.