Posted on Færðu inn athugasemd

Meira afl

Mikið vill meira! Það virðist sama hversu mikið afl bílar hafa, menn geta alltaf hugsað sér meira. Breytingar og viðbætur á vélar í því skyni snúast yfirleitt um að koma meira lofti inn í vélarnar þannig að hægt sé að láta þær brenna meira eldsneyti. Það er því ekki óalgengt að vélar eyði meira eftir breytingar sem þessar. Yfirleitt má þó rekja umframeyðsluna til þess að ökumaðurinn finnur að hægt er að aka hraðar og notar þá allt það afl sem bíllinn á til. Ef bílnum er á hinn bóginn ekið á sama hraða við svipaðar aðstæður og fyrir breytingu vélarinnar eyðir hann í mörgum tilfellum minna eldsneyti eftir breytinguna. Stærri og öflugri vél getur við ákveðnar aðstæður eytt minna eldsneyti vegna þess að hún vinnur léttar og nýtir aðeins fá prósent af hámarksafli sínu.

Áður fyrr var vinsælt að breyta vélum fjallabíla mikið. Nú eru mikið ,,tjúnnaðir“ jeppar fáir á fjöllum vegna tíðra bilana í þeim sem orsakast af miklu álagi á vél og drifbúnað. Það er heldur ekki á færi annarra en færustu viðgerðamanna og dellukalla að halda slíkum tækjum gangandi, ekki síst á fjöllum þar sem aðstæður eru hvað erfiðastar. 

Tölvukubbar og endurforritun á vél

Núorðið eru flestar vélar tölvustýrðar. Markmið þeirra er að ná hámarksnýtingu og hámarksafli og á sama tíma uppfylla stranga mengunarstaðla. Við fyrstu sýn mætti ætla að viðbótartölvukubbur eða endurforritun á vélartölvu sé einföld leið að því marki að auka afl vélarinnar. Það er þó ekki svo því jafnhliða þeirri breytingu er nauðsynlegt að gera fleira og er aukið loftflæði dæmi um það. Margir tölvukubbar sem auka afl standast ekki mengunarstaðla. Algengt er að bílarnir eyði meira eldsneyti (í fáum tilfellum minna) auk þess sem hætta er á að ending vélarinnar minnki. Aðrir tölvukubbar og forritun eru til þess gerð að leiðrétta tölvustýrð eldsneytiskerfi eftir að vélunum hefur verið breytt, til dæmis með millikæli, pústflækjum, sverara pústi eða túrbínu. Í þeim tilvikum er aðeins verið að leiðrétta eldsneytistölvuna og stilla ýmsa nema vélar og pústkerfis miðað við breyttar forsendur og er oft hægt að ná góðum árangri vegna þess að hann byggist á réttri eldsneytisblöndu á réttum tíma á öllum snúnings- og álagssviðum. 

Opið pústkerfi

Oft er talað um opið púst sem einn af möguleikum þess að ná meira afli út úr vélinni. Sú aðgerð er einföld. Sett er sverara púströr og jafnvel opnir hljóðkútar til að minnka loftmótstöðu í pústkerfinu. Þar með eykst pústflæðið frá brunahólfunum og við það batnar bruninn. Þetta hentar bæði bensín- og dísilvélum. Fyrir túrbínuvélar hefur þetta þau áhrif að túrbínan fer að blása við lægri snúning vélar. Þetta hentar jeppum einkar vel vegna þess að aflið eykst við lægri snúning. Oft er erfitt að setja sverara púst undir bílinn og leggja það þannig að það rekist hvergi í botn hans. Þetta er þó ekki vandamál á bílum þar sem yfirbyggingunni hefur verið lyft.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *