Posted on

Úrklipping

Mörgum nýbökuðum jeppaeigendum, sem vilja stærri dekk undir bílinn, óar við þeirri tilhugsun að það þurfi að saga stykki úr hliðunum á nýja bílnum. Það er ekki skrýtið. En reynslan sýnir að betra er að klippa bretti og sílsa heldur en að hækka bílinn meira – en af hverju? Þegar nægilegt pláss er fengið með bretta- og sílsaklippingu verður breyting á upprunalegum þyngdarpunkti óveruleg og meiri líkur eru á að upprunalegir aksturseiginleikar bílsins haldist óbreyttir. Bretta- og sílsaklipping krefst vandaðra vinnubragða. Það er alls ekki sama hvernig hún er gerð. Það sem þarf að hafa í huga er fyrst og fremst tvennt, að upprunalegur styrkur haldi sér, t.a.m. þegar klippa þarf í síls, og einnig að frágangur sé með allra besta móti með tilliti til ryðmyndunar. Ennfremur að notuð séu öll bestu efni og aðferðir til að ganga frá sárinu eftir að búið er að styrkja það.