Posted on

Loftdælur

Veljið loftdælunni stað sem er eins kaldur og hægt er og fjarri hitagjöfum. Þetta mun hjálpa dælunni að vinna kaldari og endast lengur.

  • Festið dæluna alltaf hærra en loftinntakið á lofttankinum til koma í veg fyrir að raki leki úr tanki yfir í dæluna.
  • Látið dæluna alltaf vinna fyrir neðan hámarksþrýsting sem gefinn er upp fyrir hverja dælu.
  • Notið alltaf loftþrýstingrofa sem slekkur á dælunni við hámarksþrýsting dælunnar eða fyrir neðan hann.
  • Látið bílinn alltaf ganga á meðan dælan er í gangi til að vera viss um að hún fái nægan straum.
  • Lág spenna (volt) leiðir til sveiflu í straumi (amp) sem getur skemmt mótor dælunnar.
  • Dælan ætti að liggja eins nálægt rafgeymi bílsins til að halda plús vírnum eins stuttum og mögulegt er og straummagni (amp) eins lágu og hægt er.
  • Öryggisventlar ættu að vera settir á 25 psi hærra en loftþrýstingsrofinn.
  • Öryggisventlar byrja að leka allt að 15psi lægra en þeir eru stilltir fyrir.
  • Setjið affallskrana til að fjarlægja auka raka úr lofttanki og munið að losa auka raka reglulega.
  • Notið alltaf “inline” (vír) öryggi þegar lagt er að dælunni frá 12 volta rafgeymi.
  • Notfærið ykkur alltaf inntakssíu ef hún kemur með dælunni.
  • Veljið inntakssíunni stað þar sem hún getur tekið inn hreint, þurrt og kalt loft.
  • Ef þú notar lofttank, notið ekki hosu með “open-ended tire chuck”.
  • Notið alltaf loftþrýstingsrofa ef þú notar lofttank.
  • Við mælum með að nota ekki stærri en 5 gallona lofttank með VIAIR dælum. Stærri tankar krefjast að bætt sé við dælum til að viðhalda árangri.

Hér er tafla fyrir réttan loftþrýsting í dekkjum.

Posted on

Það tíðkast að lækka loftþrýsting í dekkjum til að auka drifgetu þeirra. Það sem ávinnst er aukinn gripflötur dekkja við jörðu og þar með flothæfni. Því stærri sem dekkin eru þeim mun meira verður flot þeirra og grip við úrhleypingu.

Það er algengur misskilningur að úrhleyping eigi bara við stærri dekk en staðreyndin er að það hentar einnig dekkjum allt niður í 31″ dekk. Lykilatriðið er að fara sér hægt og prófa sig áfram en ekki síður að hafa hæfilega öfluga loftdælu ávallt til taks. Til eru mismunandi lausnir til að nota og tengja loftdælur. Allt frá handhægum loftdælum í töskum sem tengjast hvort sem er við 12 volt inni í bílum eða beint við rafgeyma. Önnur lausn er að setja dælu fasta í bíl, á hentugan stað. Þá er hægt að festa loftslöngutengingu til dæmis við eldsneytislok eða inn í grill. Þriðja lausnin er síðan sérstakur úrhleypibúnaður þar sem hægt er að hleypa lofti úr dekkjunum innan úr bílnum. Kerfinu er þá stýrt annað hvort með krönum eða með sérhönnuðu appi sem sýnir jafnframt þrýsting dekkjanna og getur viðhaldið honum sjálfkrafa í ákveðnu gildi.

Minnkun lofts í dekkjum er nauðsynleg við akstur í snjó en einnig mjög freistandi þegar ekið er á grófum malarvegum á sumrin. Við það verður aksturinn mýkri og þægilegri og farþegar njóta ferðarinnar betur. Þó ber að hafa í huga að engin dekk eru sérstaklega gerð fyrir lágan loftþrýsting. Því er nauðsynlegt að pumpa í dekkin aftur eins fljótt og auðið er þegar aka skal hratt á auðum eða sléttum vegi. Einnig skal forðast hvassa steina því þeir geta auðveldlega eyðilagt dekk. Á sumrin geta þær aðstæður komið upp að hleypa þurfi verulega miklu lofti úr dekkjum til að komast fyrir hindrun án þess að skemma undirlag.

Við akstur í snjó með lágum loftþrýstingi í dekkjunum þarf að gæta þess að þau hitni ekki. Reynslan er sú að þegar ekið er á mjög gljúpum snjó, sem krefst loftþrýstings allt niður í 3 pund til að drífa bílinn áfram, er ferðin vanalega svo lítil að snjórinn nær að kæla dekkið nægilega til að varna skemmdum. Ef snjórinn er harður eykst hraðagetan og hættan á dekkjaskemmdum. Því er nauðsynlegt að fylgjast ætíð vel með loftþrýstingi í dekkjunum. Þó ber að hafa í huga að utanvegaakstur er ávallt ólöglegur ekki ferðalöngum til sóma.

Dekk sem ekið er með lágan loftþrýsting eru alfarið á ábyrgð notanda því enginn dekkjaframleiðandi samþykkir að hleypt sé úr dekkjunum og keyrt á þeim þannig. Þeir sem aka í snjó upp jökla og fjöll þurfa stöðugt að fylgjast með loftþrýstingi í dekkjum, m.a. vegna þess að aukin hæð yfir sjávarmáli hefur þau áhrif að þrýstingur í dekkjum eykst. Þetta hefur veruleg áhrif á drifgetu jeppans. Á sama hátt þarf að fylgjast með og bæta tímanlega lofti í dekkin þegar farið er niður aftur. Auk hæðar yfir sjávarmáli hafa hitastig, hæðir og lægðir áhrif á loftþrýsting í dekkjum.

Algengt er að óvissa ríki um hvernig loftþrýstingurinn á að vera við mismunandi aðstæður. Við mælum með því að sækja dekkjaþrýstingstöflu þar sem finna má leiðbeiningar. Einnig tókum við saman fróðleik um loftdælur. Allt til þess gert að ferðalagið verði ánægjulegra og til þess að dekkin endist sem lengst.

Posted on

Smurolíur

Við val á smurolíu fyrir drifbúnað og vél skal fara eftir ráðleggingum framleiðenda. Þó þarf að velja frostþolnar olíur fyrir vetrarferðir um hálendi. Þær eru úr gerviefnum og eru það sem kallað er sintetískar (synthetic lubricant). Olíur úr gerviefnum fást á alla helstu slitfleti svo sem vél, gírkassa, sjálfskiptingu, vökvastýri, milligír og millikassa og sem feiti fyrir hjólalegur, hjöru- og stýrisliði. Rétt er að benda á að semí-sintetískar olíur hafa ekki sömu eiginleika í kulda og sintetískar.

Posted on

Hátt og lágt drif

Hlutverk millikassans er að flytja afl til aftur- og framhásingar. Í honum eru tveir gírar sem venjulega eru kallaðir háa og lága drifið. Við venjulegan akstur er jeppinn hafður í háa drifinu. Við sérstakar aðstæður, svo sem við ár, í stórgrýti, á slæmum vegaslóðum eða við þungan drátt er mikilvægt að bíllinn sé hafður í lága drifinu. Þegar skipt er milli drifa er best að bíllinn sé kyrrstæður eða á mjög lítilli ferð. Bíl í lága drifinu má aka í öllum gírum og eins hratt og aðstæður leyfa. Hlutverk lága drifsins er að hlífa vél, kúplingu og gírkassa við of miklu álagi og gera ökumanni kleift að hafa betri stjórn og tilfinningu fyrir bílnum við erfiðar aðstæður. Við vissar kringumstæður, einkum við akstur í ám, getur verið varasamt að aka í háa drifinu.

Posted on

Hersla á felgum

Reynsla hefur sýnt að nauðsynlegt er að fylgjast reglulega með herslu á felgum undir jeppum.

Eftirfarandi atriði eru mjög mikilvæg við herslu á felgum:

  • Mikilvægt er að endurherða felgurær eftir um það bil 200 km frá ásetningu.
  • Hámarkshersla á felguróm skal ætíð vera eftir leiðbeiningum framleiðanda bílsins.
  • Herða þarf felgurær með herslumæli. Ofhersla í eitt skipti eyðileggur felguboltana.
  • Þrífið felgur og bremsuskálar áður en hjólið er sett á.
  • Smyrjið aldrei felgubolta eða felgurær því þá geta rærnar losnað af.
  • Herðið rærnar alltaf í kross
  • Fylgist með á dekkjaverkstæðum að sá sem er að vinna við að skipta um dekk og felgur fari eftir leiðbeiningum
Posted on

Flipaskurður (míkróskurður)

Flipaskurður er hárfínn skurður á mynstri dekkjanna. Aukinn áróður gegn notkun nagla hefur leitt til nýrra leiða í því markmiði að viðhalda veggripi. Flestar nýjar gerðir vetrardekkja fyrir fólksbíla hafa flipaskurði og eru hluti af hönnun framleiðenda. Á flestum öðrum dekkjum er skurðurinn gerður eftir á í sérstökum vélum. Er jafnvel hægt að flipaskera hluta dekksins og negla hluta þess. Flipaskurður hefur þau áhrif að fleiri brúnir grípa í snjóinn. Við það eykst veggrip verulega, sérstaklega í þjöppuðum snjó eins og algengt er á vegum. Sumum finnst flipaskurður reynast betur en naglar. Flipaskornum dekkjum hættir síður við að svella undir sig, en það er þegar dekk spólar og svell myndast undir. Flipaskorin dekk plana síður í vatni, en það er þegar dekk bíls missir veggrip og flýtur vegna hraða. Við flipaskurð verða dekk yfirleitt mýkri. Hætta er á meira sliti ef mikið er ekið á hrauni og grjóti. Framleiðendur dekkja taka venjulega enga ábyrgð á dekkjum sem hafa verið flipaskorin.

Posted on

Aurhlífar

Aurhlífar þurfa að hylja alla breidd sóla hjólbarðans og kasthorn á bilinu 15-25°. Kasthorn er hornið á línu gegnum miðjan snertiflöt hjóls við veg og neðstu brúnar aurhlífarinnar. Leyfilegt er samkvæmt reglum að sleppa aurhlífum að framan sé jeppinn með stigbretti sem ná út fyrir sóla dekkjanna. Fæstir nýta sér þá heimild vegna þess að aurhlífar minnka verulega austurinn upp á bílinn. Í sumum tilvikum er gott að festa vír eða keðju milli þeirra og yfirbyggingar til að þeir leggist ekki undir dekkin þegar bakkað er í snjó eða drullu.

LC detail
Posted on

Úrklipping

Mörgum nýbökuðum jeppaeigendum, sem vilja stærri dekk undir bílinn, óar við þeirri tilhugsun að það þurfi að saga stykki úr hliðunum á nýja bílnum. Það er ekki skrýtið. En reynslan sýnir að betra er að klippa bretti og sílsa heldur en að hækka bílinn meira – en af hverju? Þegar nægilegt pláss er fengið með bretta- og sílsaklippingu verður breyting á upprunalegum þyngdarpunkti óveruleg og meiri líkur eru á að upprunalegir aksturseiginleikar bílsins haldist óbreyttir. Bretta- og sílsaklipping krefst vandaðra vinnubragða. Það er alls ekki sama hvernig hún er gerð. Það sem þarf að hafa í huga er fyrst og fremst tvennt, að upprunalegur styrkur haldi sér, t.a.m. þegar klippa þarf í síls, og einnig að frágangur sé með allra besta móti með tilliti til ryðmyndunar. Ennfremur að notuð séu öll bestu efni og aðferðir til að ganga frá sárinu eftir að búið er að styrkja það.

Posted on

Færsla á hásingu

Í seinni tíð hefur færst í vöxt að færa afturhásingar á þeim bílum sem breytt hefur verið mikið, 10 til 20 cm aftar, til að bæta þyngdardreifingu milli fram- og afturhjóla. Reynslan hefur sýnt að auðveldara er að aka í snjó sé bíllinn þyngri að framan en aftan. Ástæðan er sú að framhjólin eiga að búa til sporið en afturhjólin aðeins að fylgja í kjölfarið en ekki rista dýpra. Ef afturhjólin rista dýpra en framhjólin getur mótstaða aukist og drifgeta þar af leiðandi minnkað verulega. Þetta fer þó dálítið eftir gerð snjóalaga. Þessu mætti einna helst líkja við göngu tveggja manna í snjó; annar 100 kg að þyngd en hinn aðeins 50 kg. Gengi léttari maðurinn á undan og sá þyngri í spor hans myndu báðir þurfa að erfiða vegna þess að spor létta mannsins næðu ekki að halda hinum þyngri. Ef sá þungi gengi aftur á móti á undan þyrfti aðeins hann að erfiða því spor hans myndu halda létta manninum.

Færsla afturhásingar er einnig kostur með tilliti til hleðslu því þótt jeppar séu vanalega þyngri að framan heldur en aftan getur það breyst þegar farangri og eldsneyti er hlaðið á afturhluta bílsins. Þetta jafnvægi getur verið afar viðkvæmt. Sem dæmi um það má nefna að með því að færa matarkistu úr aftasta rými jeppans og setja hana upp að baki framsætanna getur aksturshraðinn á jökli farið úr 5 km/klst í 50 km/klst. Þetta gerist þó aðeins ef aðstæður eru mjög erfiðar og snjór gljúpur.

Færsla á afturhásingu hefur áhrif á hreyfingar bílsins þannig að svokallað stamp minnkar, hreyfingar verða jafnari og jeppinn láréttari þegar hann fjaðrar. Það er kallað stamp þegar jeppi steypir á stömpum við akstur í snjó. Færsla afturhásingar hefur einnig áhrif til batnaðar þegar ekið er upp brekkur því þegar þyngd jeppans færist á afturhásingu við akstur upp brekku hjálpar færslan við að halda gripi á framhjólunum. Ef nefna ætti galla við færslu afturhásingar væri það einna helst lítillega aukinn beygjuradíus. Þá finnst sumum sem útlit jeppanna versni við færsluna en það er að sjálfsögðu smekksatriði og tengist einnig hönnun brettakanta sem eiga að hylja það rými sem myndast fyrir framan hjólin. Rétt er að benda á að færsla afturhásingar er yfirleitt kostnaðarsöm aðgerð en þeir sem vilja ná því besta út úr jeppanum fara út í þessa aðgerð.

Posted on

Breyting á hraðamæli

Samkvæmt lögum á hraðamælir í bíl alltaf að vera réttur. Ef drifum er breytt í réttu hlutfalli við aukna dekkjastærð ætti engin breyting að verða á hraðamæli. Þetta er þó ekki alltaf svona einfalt. Stundum eru ekki til drifhlutföll sem passa nákvæmlega til að leiðrétta breytinguna. Þá velja sumir hærri eða lægri drif eða breyta dekkjastærð án þess að breyta drifum til að fá fram einhverja aðra eiginleika. Þá er nauðsynlegt að leiðrétta hraðamælinn (sjá viðmiðunartöflu um drifhlutföll). Leyfilegt frávik hraðamælis er allt að 10% yfir raunhraða að viðbættum 4 km/klst. Hraðamælir má aldrei sýna meira en 4% minni hraða en raunhraða. (Sbr. Reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Dómsmálaráðuneytið, janúar 1999) Hraðamælum má breyta með því að setja lítinn gír á hraðamælabarkann og auka eða minnka hraðann á barkanum eftir þörfum. Margir nýrri jeppar hafa rafeindahraðamæli sem hægt er að breyta með rafbúnaði sem leiðréttir merkið frá hraðanema í drifrás jeppans. Þá er hægt að hafa hraðamælinn réttan þótt notaðar séu tvær mismunandi dekkjastærðir því rafbúnaðurinn er tveggja rása og er skipt milli dekkjastærða með rofa.